Saturday, December 30, 2006

milli tíða

2006 eða 2007. Er svo sem sama hvor talan er á endanum. Í gær var mikil hátíð, þá tóku sig saman Hildigunnur og Skúli. Samfestingin var frábær, tónlistin í og eftir athöfn góð, ræðurnar hlýjar og kætandi, gott freyðivín á boðstólnum ásamt gnæðar annarra veitinga. Húrra, húrra, húrra fyrir H&S (ehf).
Þá gengum við Elín í fjölskylduboð hjá M&P. Alltaf gaman í samkundum ættarleggs föður míns þar sem fólk er meira en til í að tala um málefni líðandi stundar. Rætt var um skólamál, heilbrigðiskerfið og muninn milli rafeindaverkfræðings og prests. Einar frændi minn var á þeirri skoðun að það væri ekki mikill munur milli þessara tveggja einstaklinga, prests og raf-fræðings, þeir gætu vel gengið til sama klipparans. Alltaf spilað í þessum boðum, sumir verða tapsárir, öðrum þykist standa á sama. Ég vann öll þau spil sem ég tók þátt í (liðið mitt þ.e.a.s.). Allir drukku eitthvað, þeir yngstu jólaöl, þeir eldri rauðvín, bjór, heimabruggaðan bjór, 12 ára gamalt kúbanskt romm. og fleira. Allir kílói þyngri þegar þeir gengu út um dyrnar seinna um kvöldið.
Saddam Hussein bara orðinn píslarvottur í dag. Ég mæli því með bókinni "Píslarvottar nútímans" eftir Magnús Þorkel Bernharðsson í tilefni dagsins.
Þessa dagana er ég andvaka ásamt allri þjóðinni af öllum líkindum sökum biðar eftir frétta-annálum ársins 2006. Og hvernig verður skaupið? Ég gafst upp á skaupinu í fyrra, ég ætla frekar að setja "Curb your Enthusiasm" í DVD spilarann til að kveðja 2006 með gleði í hjarta.

-Í innra eyranu: The Annuals, platan Be He Me; Professor Murder, platan Professor Murder Rides the Subway; Jay Dee, platan The Shining
-Á sjónhimnunni: Öxin og Jörðin eftir Ólaf Gunnarsson og Skáldalíf eftir Halldór Guðmundsson.


TFGÁ og MÞNBYLÍSS

Monday, December 25, 2006

Hátíðarskap

Gleðilegar heilagar tíðir. Megi guð og aðrar vættir vera ykkur hliðhollar á komandi blessuðum tíðum. Megi pakkinn vera með ykkur eins og ég sagði við frænda minn í gær. Hann hefur þegar sýnt mér mátt sinn, ég fékk nær allt sem ég gat hugsað mér að fá. En ég fékk þó mun færri jólakort, aldrei fengið jafn fá jólakort. Þegar ég var á leikskóla fékk ég fullt af kortum eftir litlu jólin þar á bæ. Áður en ég komst á stofnana-aldur var mér einnig óskað gleði í kortum til m&p. Nú er ég fluttur að heiman, engin lítil jól handa mér og ég enda í íbúðinni minni uppfullur af veraldlegum gæðum.
En aðfangadagur var ánægjulegur. Rjúpnabragðið lék vel við bragðlaukana fremst á tungubroddinum og hliðlægt á tungunni, þar eru villibráðar-bragðlaukarnir. Miðnæturmessa í Dómkirkjunni var ágæt, Rás 1 jólalagið var frumflutt af mikilli snilld og biskup Íslands talaði um baggalút, fór með texta eftir þá sí og æ.

GJ+FKÁ

Friday, December 08, 2006

Helgin sem kom aldrei

Ég er á leiðinni til Akureyrar. Það er bær á Norðurlandi. Hann er víst kallaður höfuðstaður Norðurlands, a.k.a. Bangkok norðursins.

Facta:
-Fjöldi þeirra sem hýrast á götum Akureyrar eru rétt rúmlega 10000 talsins, ef ólöglegir innflytjendur frá Asíu eru ekki taldir með
-Fyrrverandi Bæjarstjóri Akureyrar heitir Kristján Þór Júlíusson og núverandi eða tilvonandi (mér er svo sem sama, þau eru bæði afleiður Tilbura bláa einkavæðingaflokksins) nefnist víst Sigrún Björk Jakobsdóttir) en hún bjó lengi erlendis og lærði til Hótelreksturs
-Það eru nokkrar kirkjur í bænum
-Spítalinn á svæðinu nefnist Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri (FSA) og aðalinngangurinn er nefndur B-inngangur
-Ég mun halda til á FSA í tvær vikur vegna handlæknislegrar verkmenntunar
- Ég fer á bíl og sendi snjóbrettið með flugvél. Ég fer á snjóbretti en geri ekki Backflipp þar sem ég komst að því að bakið getur endað svona ef ekki tekst nógu vel til:


Hér sjáum við klassískt tilfelli af bakmeiðslum sem nefnist:
Flexion-Distraction injury








Já ég á engar helgar eftir til að njóta, ég er alltaf að nota tímann í eitthvað annað en njóta stundanna sem koma á milli virkra daga. Ég hef ákveðið að rísa upp gegn gerfiannasemi minni og fá mér aðeins í tánna í kvöld. Það er hægt að finna mig á DOMO, nýja staðnum áÞingholtsstræti þar sem sportbarinn var áður til húsa, skáeygðan, gleiðsporandi og brosandi.

Wednesday, December 06, 2006

Tundur og tól

Manstu eftir rjómabollufaraldrinum? Ég man ekki eftir honum en ég var að lesa mér til um hann. Þá fékk einhver sem þú þekkir líklega og er sólginn í rjómabollur Salmonellusýkingu. Við erum að tala um 2-3% líkur á liðbólgu hjá þessum einstaklingi (Reiter´s syndrome).

Sástu tunglið í dag? Ég sá það, fullt og girnilegt.

Það varð að gerast einhverntíma. Það gerðist í fyrradag. Ég fór í nýju IKEA búðina sem er svo langt í burtu að vegalengdin samsvarar allri Manhattan eyjunni að lengd. Jæja ég tók með mér úr búðinni tvo stæðilega standlampa. Ég fjárfesti einnig í koddum, pottum og pönnum, jólapappír og einhverju fleiru sem er svo ómerkilegt að ég man ekki hvað það er. Jú, hringlaga baðmotta í orange lit var það, afar smekkleg. En ekki fara í búðina að óþörfu. Þú verður að labba allan hringinn, ert fastur í upphafinu á löngum hring sem þú verður að keyra þig í gegnum. Lyftan er bara með takka til að fara upp en ekki niður uppahafsmegin svo þú verður að gjöra svo vel að taka þig á og leggja af stað hringinn til að komast hinumeginn að lyftunni og fara niður. Ég sá enga brunaútganga á leiðinni. Ég tók eftir þessu því ég fór út um slíkan í hollenskri IKEA búð og öll verslunin pípti digrum karla rómi: Veúúú, veúúú, veúúú. Annars væri ég ekki til í að láta hlera símann minn því þá ætti ég ekki mörg leyndarmál til að leyna öðrum. Þá gæti það líka endað illa. Það yrði eitrað fyrir mér á endanum. Ég nefnilega hef ekki mikla trú á stjórnvöldum í Rússlandi.

Í innra eyranu: Joanna Newsome, Ys sem og The Milk-Eyed Mender.
Á sjónhimnunni: In Cold Blood (Truman Capote) og Konungsbók (Arnaldur Indriðason)

Saturday, December 02, 2006

KEF-Frankfúrt-Ludwigshafen-Heidelberg-Ludwigshafen-Frankfurt-Köben-KEF

Ég er kominn aftur frá Ludwigshafen. Og hvað græddi ég á þessari ferð minni? Ekki pening get ég sagt ykkur. Ekki visku get ég sagt ykkur. Ekki aukna orku get ég sagt ykkur. Ég er búinn að vera með pest í nokkrar vikur núna. Ég gaf skít í veikindin þegar ég fór út, drakk mikið af bjór og borðaði óhollan mat, svaf óreglulega og lék, dansaði og söng á sviði fyrir Þjóverja eins og vitlaus maður.

Karl Erlingur hefur tekið sótt til 4. vikna og hefur hugsað sér að ganga til læknis fljótlega. Sá gangur verður ekki langur þar sem ég eiði nú þegar stórum hluta lífs míns þar. Í gegnum síðustu ár hefur mig grunað að ýmsar sóttir hafi verið að plaga mig, eins og heilaæxli, psoiriasis, lifrarbólga, ofnæmi í öllum sínum myndum og allt sem nöfnum er hægt að nefna. Maður fær nefnilega flest það sem maður les um. Nú grunar mig að ég sé kominn með berkla þar sem ég var að vinna á smitdeild um daginn og til eru dæmi þess að læknanemar hafi smitast af berklum á spítalanum.

Ég upplifi nú í miklum mæli nætursvitaköst, vægan hausverk, minnkaða orku og stöðuga þreytu, verki í öllum líkamanum og einskonar dofa. Ég get ekki einbeitt mér, ég get ekki farið að hreyfa mig, ég er bara í ruglinu.

Þó getur þetta bara allt verið í hausnum á manni og verið orskað af streitu, það segir faðir minn alla vega og hann er sálfræðingur.

Jæja, Þýskaland var afar fínt, bærinn Heidelberg er stórkostlegur, kastali, hús frá miðöldum, steinilagðar götur sem Goete, Schiller, Wagner og Mann hafa líklegast gengið eftir. Myndir af þessu seinna. Núna er ég farinn upp í rúm til þess að vera veikur.