Sunday, June 10, 2007

Íbúðin

Þetta er magnað. Ég bý víst í afar fínni íbúð. Laugardalurinn er 50 m í burtu, kaupmaðurinn á horninu er í 40 skrefa fjarlægð. Ég hef ekki verið í íbúðinni minni svo megi teljast í fleiri mánuði. Í 4 mánuði hef ég farið héðan út fyrir kl. 8:00 og ekki komið aftur fyrr en eftir kl. 23:00.
Ég er búinn að eyða heilum 2 dögum í íbúðinni minni án þess að gera neitt uppbyggjandi. Það sem er hægt að gera í íbúðinni:
1)Elda mat, borða mat. Ég er búinn að borða 7,2 kg af öllu mögulegu um helgina. Grilla, steikja, baka, sjóða, bræða. Fjárfesti í svínakjöti á föstudaginn sem var svo brimsalt að augun á mér skruppu saman inn í augtóftina og munnurinn á mér krapp saman svo ég neyddist til að þræða magasondu um nefið á mér og halda vel að mér vökva í 2 klst til að geta séð aftur og opnað munninn.
2) Búa til kaffi, tvöfaldan, þrefaldan espresso.
3) Spila á píanóið, heví jass, mega Bach, Grieg.
4) Drekka bjór, brugga bjór, 25 lítrar af bjór eftir 3 vikur.
5) Horfa á allar 8 myndirnar mínar upp á vegg sem eru ljósteknar (framkallaðar), málaðar, grafíkaðar og prentaðar.
6) Horfa á alla þættina sem ég fæ lánaða hjá fjölskyldunni fyrir ofan, The Young Ones, Peep show og The League og Gentlemen.
7) Lesa bækur, lesa og lesa eitthvað sem tengist námi á engan hátt. Ég er kominn með á leigu og í láni 9 bækur sem mig hefur lengi langað að lesa en ég er ekki enn byrjaður á þeim, það er auðveldara að horfa á sjónvarpið.
8) Fara í öll fötin sem maður á fyrir framan spegil og spá í hvað passi við hattinn sem ég á.
9) Sofa, sofa út, sofa lengi, sofa fullur og vakna þunnur.
10) Nudda á sér ennið og hugsa með hryllingi til áfengisins sem var drukkið daginn áður.
11) Fara í langa, langa sturu, fara á klósettið með hurðina opna (elín er á kvöldvöktum og því ekki heima á kvöldin)
12) Hlusta á tónlist, alla geisladiskana sem ég hef fjárfest í síðastliðin fjögur ár og tónlistina sem ég hef ekki fjárfest í (fengið lánaða hjá vinum, vandamönnum og bókasafni þ.e.a.s.).
13) Sippa í stofunni
14) Borða CHEERIOS með AB mjólk....... Nei lesandi góður nú hef ég gengið of langt í upptalningum mínum, farinn of fjarri glansandi gljálífi æskunnar, ég er farinn að tala um hluti sem ég geri dags daglega, til að komast af, teljandi upp kaldan og blautan raunveruleikann eins og hann sé skrifanna verður.

Ekki skal kvíða næstu rimmu við raunveruleikann, 11. til 23. júní. Lesendur góðir, ég verð á vakt næstu helgi. Endar svo vinnurimman með fimm næturvöktum, fimm sautján tíma vöktum á sjúkrahúsinu við Hringbraut. Ég er kominn úr silkihönskunum í leðurgrifflur með smellum til að festa á hvítan sloppinn, tilbúinn til að glíma við veruleikann næstu tólf dagana.

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Hæ, kalli.
Gaman að sjá að þú ert farinn að blogga.
Vona að allir hafi það gott heima á Íslandi.

Kveðja,

GRV

4:42 PM  
Anonymous Anonymous said...

Já það er gott að skrifa, það væri ekki gaman að lesa þetta blogg ef ég skrifaði sjaldan eða aldrei neinn prósa. Annars hafa allir það gott hérna megin (sunnan) við Eiríksgötu og ég bið að heilsa öllum við Snorragötuna.

8:14 AM  

Post a Comment

<< Home