Monday, November 20, 2006

Þessi vika, þetta líf

Hvað er ég að segja með titli þessara skrifa?
Lífið er orðið að vikum í huga mínum. Allar vikur keimlíkar, ég er farinn að drekka sama kaffið á sama stað á sama tíma alla daga vikunnar. Sama bragðið og sama lyktin í loftinu. Eini munurinn á vikunum er sá að ég er á mismunandi deildum Landspítalans. Melting, smit, öldrun, röntgen og bráðamóttaka. Þetta er fjölbreytileikinn í lífi Karls Erlings Oddasonar Billich. Nei haha, ég fer í World Class 3x á viku, hlaupandi eins og afhausaður kjötskrokkur á færibandi með sjónvarpið speglandi viðbjóð lífsins í hvítu augans.


Sufjan Sykurmoli:
Allir lífsins tónleikar freistuðu mín ekki þessa vikuna, þ.e.a.s. ég fékk ekki miða eða átti ekki pening fyrir honum. Ég er að spara illmenninguna, ég er á leiðinni til Ludwigshafen í Þýskalandi. Eins og þú veist eru Þjóðverjar mikið fyrir að drekka bjór, stofna til styrjalda, spara samt pening og halda öllu í röð og reglu í kringum sig. Ég er mest hrifinn af bjórmenningunni og læt önnur áhugamál þeirra að mestu óhreyfð nema Bauhaus stefnu þeirra í arkiterkúr og listum, uppáhaldsstóllinn minn í æsku var skapaður undir áhrifum þeirrar stefnu.



Ég er því dottinn út til Ludwigshafen næstk. Föstudag. Þar mun ég slá í gegn á tveimur sýningum Woyzeck. Það er einhver leiklistarhátíð í gangi. Ég er 3. gaurinn frá vinstri með sólgleraugun í söngatriðinu þegar kapteinninn mætir til leiks, dinglandi úr loftinu.
Það veit samt enginn hvar Ludwigshafen er þó hún sé við bakka Rínar rétt rúmlega stærri en Reykjavík. Þessi borg er tilvalinn upphafsstaður leiðangra inn í Svartaskóg eða vínhéruð SV-Þýskalands.

Ég lifi þótt ég sé 100% viss um að Golfstraumurinn sé alveg horfinn okkur sjónum hér á landi bændaflokksins og mjólkurkvóta. Kannski kem ég ekki heim 29. nóvember.

Friday, November 17, 2006

Um hvað

Ég var að velta því fyrir mér um daginn hvað væri skemmtilegt. Er ég skemmtilegur? spurði ég sjálfan mig. Eru félagar og aðstandendur skemmtilegir? spurði ég sjálfan mig.

Kunningi sagðist ekki hafa þekkt mig um daginn því ég var svo rólegur. Ég var að gera teygjur á gólfinu í ræktinni. Ég var þó ekki ofvirkur í æsku, ég hafði aðeins mikla orku í æðunum. Ég veit í dag að ég á það til að vera svolítið órólegur. Þegar ég hef sofið lítið verð ég stundum svolítið skrítinn, stúlka sagði mig vera í steikhúsinu um daginn.

Hef ég valið fólkið í kringum mig eða hafa óhjákvæmileg félagstengsl valið mig sem föruneyti einstaka samtíðarmanna minna? Höfum við uppi svokallað nauðungarsamband á milli okkar þar sem aðstæður neyða okkur til samskipta eða afskipta af hvor öðrum (kk þar sem allir eru menn)?

Upplýsingar sem koma þér ekki að gagni:
1) ég losna ekki við táfýluna sem er að plaga mig . Ég hef heyrt gott húsráð, setja lítra af AB mjólk í skál og stinga fótunum ofan í og hlada þeim þar í einhvern tíma. Þá er líka hægt að nota kuldan sem er úti núna, ganga berfættur eftir fremsta megni úti því kuldinn á víst að drepa helvítis sveppina
2) Það var stolið þvottavél í vesturbænum og mig vantar einmitt núna þvottavél
3) Það var rafmagnslaust í vinnubúðunum við Kárahnjúka en þeir styðjast einmitt við díselvél til að mynda rafmagnið
4) Hvort verið sé að gefa stjörunur á fimm skala eða fjórir skala í Fréttablaðinu hef ég ekki hugmynd um
5) Ég er á vakt meðan aðrir heilvita menn eru í vísindaferð í maga skattkonungs íslands, höfuðstöðvum KB banka

Saturday, November 11, 2006

Kl. 14:34 á föstudegi barst mér bréf

Ég var veikur í síðustu viku, þrjá daga í röð. Ég á að hringja til einstaklings á spítalanum til að tilkynna veikindi mín alla dagana. Hann er aldrei mættur fyrr en rétt fyrir 9:00 í símann og er ekki alltaf við. Nú er mér sagt að ég eigi að skila veikindavottorði inn ef ég er veikur í meira en einn dag. 95% mætingaskylda er á verklega lyflæknisfræði. Ekkert nema ágætt um það að segja.

Ég var að vinna á Smitsjúkdómadeild og verð því líklega eitthvað veikur á tímabilinu (kannski ekki?).

Á ég þá að biðja sérfræðinginn á deildinni um veikindavottorð? Á ég að biðja bekkjarfélaga minn um að skrifa vottorðið fyrir mig? Á ég sjálfur að skrifa það? Eða á ég að hringja í ritara heimilislæknisins sem ég er hjá og segja að ég þurfi veikindavottorð fyrir þessa þrjá daga en borga í staðinn 1500 kr. Er mér ekki treyst til að meta mín eigin veikindi en sjá síðan sjálfur um veikindi annarra?

Ég mun þurfa að taka verklegt og skriflegt próf í þessum fræðum þótt ég sé veikur í þrjá daga eða meira.

Thursday, November 09, 2006

Og enn að þjóðarmálum

Má ekki tala um innflytjendur? Verðum við að sneiða fram hjá umræðunni um nýlendudjáknana og pukrast með lagakrókana, hver í sínu horni? Annars er ég á því máli að varlega verður að fara að þessu umtali, ekki fella einhverja dóma í hugsanaleysi og átta sig á því að útlent vinnuafl er ein stoð hagvaxtarins síðustu misseri.

Og þá að BNA. Hvenær? var bara spurningin varðandi uppljómun bandarísku þjóðarinnar (50% þeirra sem eru á kjörskrá, við tökum ekki með ólöglega innflytjendur) um illt stjórnarfar landsins. Donald Rumsfeld látinn fara, við sjáum ekki mikið af honum héðan í frá. Ég efast samt um Robert Gates, sem er einn af höfuðpaurum homeland security en sú stofnun ber hvað mest ábyrgð á mannréttindabrotum sem Bush stjórinin hefur verið að fremja síðustu ár. Því held ég að Nancy Pelosi sé gott afl á vogarskálar mannréttinda í BNA sem og víðar í heiminum.

Annars afsaka ég þetta pólitíkusa kjaftæði, ég hugsa ekki mikið um þetta en það hefur ekki verið mikið að gerast á nýliðnum tímum hjá mér. Námið hefur formlega kæft sjálfið hjá mér, ég er bara innantómur læknanemi sem veit ekki neitt og virðist oft bara vera fyrir á spítalanum. Ég segi oftast þar sem maður á til að gera gott handtak sem reynist þarft og koma með markverðar ályktanir um meðferð.


Ég vona að þið fjúkið ekki í vonda veðrinu í nótt!

Sunday, November 05, 2006

Úr háloftum heimsins

Svo við skiptum núna um málefni, má nokkuð bjóða þér kaffi?
Já takk, gjarnan. Ertu búinn að fara á listasýninguna á Listasafni Íslands um málverkið á Íslandi eftir 1980?
Ha nei ég er ekki enn búinn að fara.
Þannig að þú ætlar að fara?
Já ég held það! Hvað má bjóða þér í kaffið?
Áttu nokkuð klasasprengjur?
Ha nei því miður en ég á úran með vott af N-kóreu og Ísrael-keim.
Nei sama og þegið, ég tek það bara svart.