Wednesday, June 27, 2007

Hreinsa til í skápnum

Það er lífgandi að vera í vinnu þar sem tilfinningin um að maður sé að gera gagn kemur upp annað slagið. Taka blóð, gefa blóð, skrifa upp á lyf, hlusta lungu hér og þar, hlusta á hjarta, gera (horfa) mænuástungu, taka mergsýni, panta rannsóknir og meta niðurstöður og hringja í sérfræðing þegar maður telur sig vita nóg um tilfellið til að ræða málin.

Ég er umkringdur gravid og nýléttari konum eða verðandi feðrum, allir komnir í fasta vinnu og með föst laun og það er mega flame að komast út úr bænum eina helgi, tjalda, grilla og ganga, áður en næsta vinnugeðveiki byrjar, það flippaðasta sem ég hef gert í sumar.

Nei ég er ekki að verða faðir, ég hef enn ekki komist það langt í mínum þankagangi. Það komast fæstir það langt í skipulagningu, nema áráttu-þráhyggjuröskunar einstaklingar. Mín tilfinning. Þetta gerist í miklum meiri hluta óvænt, svona hei, ekki planað en ókei, töff.

Annars er þessi maður ekki enn orðinn faðir að minni bestu vitund, enda lifir hann stóðlífi og er stórdrykkjumaður þessa dagana.

Svo er annar háðsfugl sem ég þekki nokk vel farinn að deita, nefni engin nöfn. Er svona athuga málin og hættir hann nú vonandi að tala um stelpur og hvað lífið þýði í raun og veru. Nú getur hann farið að telja dagana í að verða foreldri.

Tuesday, June 12, 2007

Þetta er nú meira lánið

Nú er tími til að fá sér lán. Lán til þess að geta skitið peningum í smá tíma. Alltaf þótt orðatiltækið eiga vel við. Bankinn sér svo um að skeina mér. Ég vona að bankinn noti svona klósettappír með hvolpinum á, ekki professional frá Lotus sem er fyrir fyrirtæki og alls ekki endurunninn því útbrot eru algeng afleiðing notkunar.

Því miður tala staðreyndirnar öðru máli. Lánþegi fær að skeina þig með lífslangri skuld, skuld sem er stærri og lengri en listinn yfir öll þau mannréttindabrot sem Ríkisstjórn Kína hefur framið á þegnum sínum eftir valdatöku kommúnista. Bankinn eignast þig, nema þú vinnir 10 klst á dag og líka um helgar. Færð ekki að vera mikið í íbúðinni sem þú varst að fjárfesta í.

Stéttin fyrir utan íbúðina sem þú keyptir á 90% láni eða yfir mun á endanum sjá um að skeina þig því bankinn tók íbúðina og aðrar eignir upp í skuldina. Skuldin/lánið hljómaði ekki hátt á sínum tíma en það gleymdist að athuga með vexti, verðtryggingu og öll þau gjöld sem bætast við þegar ætlað er að borga stóran hluta af láninu í einu eða borga lánið með nýju sem hefur lægri vexti og minni kvaðir. Bankarnir eru langstærstu fasteignaeigendurnir á Íslandi, svipar óneitanlega til kirkjunnar fyrr á tímum. Selja ekkert til að halda framboði og eftirspurn jöfnu.

Lesandi kær, bankar á Íslandi sem og annars staðar eru ekki alvondir að mínu mati. Ég á bara til með gleyma mér, ranka við mér í miðri litríkri og hýrri auglýsingu frá Glitni, KB, BYR, SPRON eða Landsbankanum, hugsandi að bankarnir hér á Íslandi séu einskonar góðgerðarfélög og séu með bara allt á sanngjörnum kaupum og kjörum. Ekki eru margir sem fengu lán hjá þessum bönkum jafn skælbrosandi og fólkið í auglýsingunum. Það kostar að taka lán. Bankar eru einkareknir og þurfa að skila hagnaði. Ekki halda að þú sért að fá eitthvað af þessum gróða sem bankar landsins eru að sýna í dag. Lesandi góður, ekki gleyma þér og ranka við þér á stéttinni fyrir utan húsið þitt þegar of seint er í rassinn gripið og klíníngurinn kominn út um allt. Suma klíninga er ekki hægt að skeina.

Sunday, June 10, 2007

Íbúðin

Þetta er magnað. Ég bý víst í afar fínni íbúð. Laugardalurinn er 50 m í burtu, kaupmaðurinn á horninu er í 40 skrefa fjarlægð. Ég hef ekki verið í íbúðinni minni svo megi teljast í fleiri mánuði. Í 4 mánuði hef ég farið héðan út fyrir kl. 8:00 og ekki komið aftur fyrr en eftir kl. 23:00.
Ég er búinn að eyða heilum 2 dögum í íbúðinni minni án þess að gera neitt uppbyggjandi. Það sem er hægt að gera í íbúðinni:
1)Elda mat, borða mat. Ég er búinn að borða 7,2 kg af öllu mögulegu um helgina. Grilla, steikja, baka, sjóða, bræða. Fjárfesti í svínakjöti á föstudaginn sem var svo brimsalt að augun á mér skruppu saman inn í augtóftina og munnurinn á mér krapp saman svo ég neyddist til að þræða magasondu um nefið á mér og halda vel að mér vökva í 2 klst til að geta séð aftur og opnað munninn.
2) Búa til kaffi, tvöfaldan, þrefaldan espresso.
3) Spila á píanóið, heví jass, mega Bach, Grieg.
4) Drekka bjór, brugga bjór, 25 lítrar af bjór eftir 3 vikur.
5) Horfa á allar 8 myndirnar mínar upp á vegg sem eru ljósteknar (framkallaðar), málaðar, grafíkaðar og prentaðar.
6) Horfa á alla þættina sem ég fæ lánaða hjá fjölskyldunni fyrir ofan, The Young Ones, Peep show og The League og Gentlemen.
7) Lesa bækur, lesa og lesa eitthvað sem tengist námi á engan hátt. Ég er kominn með á leigu og í láni 9 bækur sem mig hefur lengi langað að lesa en ég er ekki enn byrjaður á þeim, það er auðveldara að horfa á sjónvarpið.
8) Fara í öll fötin sem maður á fyrir framan spegil og spá í hvað passi við hattinn sem ég á.
9) Sofa, sofa út, sofa lengi, sofa fullur og vakna þunnur.
10) Nudda á sér ennið og hugsa með hryllingi til áfengisins sem var drukkið daginn áður.
11) Fara í langa, langa sturu, fara á klósettið með hurðina opna (elín er á kvöldvöktum og því ekki heima á kvöldin)
12) Hlusta á tónlist, alla geisladiskana sem ég hef fjárfest í síðastliðin fjögur ár og tónlistina sem ég hef ekki fjárfest í (fengið lánaða hjá vinum, vandamönnum og bókasafni þ.e.a.s.).
13) Sippa í stofunni
14) Borða CHEERIOS með AB mjólk....... Nei lesandi góður nú hef ég gengið of langt í upptalningum mínum, farinn of fjarri glansandi gljálífi æskunnar, ég er farinn að tala um hluti sem ég geri dags daglega, til að komast af, teljandi upp kaldan og blautan raunveruleikann eins og hann sé skrifanna verður.

Ekki skal kvíða næstu rimmu við raunveruleikann, 11. til 23. júní. Lesendur góðir, ég verð á vakt næstu helgi. Endar svo vinnurimman með fimm næturvöktum, fimm sautján tíma vöktum á sjúkrahúsinu við Hringbraut. Ég er kominn úr silkihönskunum í leðurgrifflur með smellum til að festa á hvítan sloppinn, tilbúinn til að glíma við veruleikann næstu tólf dagana.

Thursday, June 07, 2007

Tímatafla

Félagar, það hefur ýmislegt gerst upp á síðkastið. Ég er loksins farinn að skynja sjálfan mig og umhverfið aftur en sú framþróun tekur afar langan tíma. Í töluverðan tíma hef ég nú verið á einstefnuleið að einhverjum punkt sem ég var hættur að geta skilgreint. Skv. gömlu skilgreiningunni á ég að hafa náð þessum punkti, en ég get ekki samþykkt það. Aldrei sem fyrr er ég leitandi, reyni að hafa uppi á sjálfum mér, sjá hvort að ég þekki enn eitthvað af þessu fólki sem hefur verið mér samferða í gegnum tíðina. Ég er óneytanlega orðinn sjálfum mér mjög fjarlægur, ég þekki mig vart lengur.

Sumarið að renna í hlað í þessum skrifuðu orðum. Úrslitaviðureignin í NBA er hafin. Nýr heilbrigðisráðherra lofar erminni á jakkanum sínum, ráðherrar eru hættir að lofa upp í ermina á sér, gefa hana frekar alla.
Það eru margir veikir einstaklingar á spítalanum. Ég fór næstum því að hlæja þegar einn hjúkrunarfræðingurinn spurði mig hvað ætti að gera varðandi einn skjólstæðinginn. Hvað er hún að spyrja mig? Á ég að vita eitthvað um þetta málefni, ég er bara búinn að vinna sem læknanema-deildarlæknis-ígildi í fjóra daga. Ég var að klára próf fyrir fjórða ár í læknisfræði og það stóð ekkert um þetta í námsefninu. Annars kláraði ég mig vel, tók á þessu af akademískri ró, gerði rétta hluti í réttri röð: hringdi á "hinn" deildarlækninn á teyminu.