Wednesday, May 30, 2007

Eftir á

Það hefur lítið breyst síðan Berlínarmúrinn féll, austan tjaldsins. Það mun lítið breytast þegar ég klára prófin á morgun. Ég er svipaður Kommunum og mafíunni, er ekki fyrir miklar breytingar.

Ég hef því hug á að gerast Beatnik milli vakta á LSH, labba um götur bæjarins í lörfum, redda mér ókeypis fari hingað og þangað, kaupa ódýrt kaffi þar sem áfylling fylgir með, reykja sígó, úti á götu en ekki inni, og revidera í Allen Ginsberg og tala um Kerouac eins og hann væri besti vinur minn, lesa ljóð upphátt fyrir utan Apótekið á Austurstræti, vera alltaf með viskífleyg innan klæða og vera alltaf með hatt. Þá enda ég í Berlin 10. júlí eftir góða viðveru á Hróaskeldu og hristi hausinn yfir ástandinu austan við múrinn, les upp ljóð, set hattinn á mig og geng burt með bakið blasandi við heimssögunni, beint í fasið á Sumarinu 2007.

Thursday, May 24, 2007

óvissuferðir og pizzur

Þegar prófið var að skella á áttaði ég mig á því að ég hef aldrei verið jafn líkamlega stressaður, ég var autt blað, gat ekki rifjað upp stakan staf.
Það rifjaðist upp fyrir mér að ég vaknaði þrisvar í nótt í svitabaði. Eitt skiptið dreymdi mig að í staðinn fyrir borð með prófi hafi verið ákveðið að koma fólki á óvart með pizzaveislu og óvissuferð.
Það voru engar pizzur þegar ég mætti í aðalbyggingu HÍ í morgun klukkan 8:57.
Ég neyddist til að svara 150 krossaspurningum og kreista úr mér alla þá þekkingu sem ég inniheld um hjartabilun, hyperkalsemiu (of hátt Kalsíum) og langvinna nýrnabilun.

Tuesday, May 22, 2007

Þegar lestur brestur á

Nú er stóllinn sem ég sit í búinn að fá nóg af mér og neitar að ljá mér sæti. Þannig er mál með vexti að stóllinn hefur fengið yfir sig nóg af mér og mínum buksum. Ég hef setið í stólnum nú í gott 6 vikur alla daga a.m.k. 6 klst á dag og mest 14 klst. Þegar ég kom í morgun til að setjast í stólinn var hann búinn að æla sig allan út svo ég myndi ekki sitjast. Nú er ég því standandi á lokasprettinum fyrir lyflæknisfræðilegt próf sem mun vera afar fyndið í ár skv. manninum sem stjórnar náminu, Runólfi.

Annars hefur Gauti, góðvinur lögreglunar greinilega tekið upp sína illu siði frá forseta Rúmeníu sem er heldur ekki vel við sígauna.
Þeir eru nú nokkuð líkir vinirnir:


.

Sunday, May 20, 2007

Smákrimmar Íslands í vondum málum

Nú er ekki lengur dimmt á Íslandsströndum. Enginn getur flúið líf sitt í skjóli næturs héðan af (þar til í lok ágúst þ.e.a.s.).

Ef einhver sykurpúðinn hefur hug á nammi þá skifar sá hinn sami bara í kommentakerfið og biður um eitthvað því ég sæki Elínu á flugvöllinn í kvöld og get beðið hana um að kaupa allt það sem hugurinn girnist, nema áfengi, allur sá tollur mun nýtast í einkaneyslu við próflok.

Jóel, sem ætlaði að fara með mér til Hróa og Búlgaríu er víst genginn í herinn og hættur í læknisfræði. Hann hefur þó ítrekað óskir um frí í júlí til að komast í ferðina.

Friday, May 18, 2007

Skeleggur spyr sig

Rættust draumar forfeðra minna. Samfylkingin komin í stjórn. Tími Jóhönnu sigurðardóttur er kominn. Gamlir kratar og kommar aftur hafa snúið aftur. Húrra, húrra, húrra.

Og veðrið, það er glæpsamlegt veður úti, ég að svitna í stuttermabolinn minn í Fármúlanum (Ármúli 30) og það er ekki gott þar sem ég fann ekki holhandarstautinn minn í morgun.

Ég fór til New York City í apríl en aldrei til Kanada. Þar safnaði ég miklum og góðum bjúg vegna bjórdrykkju og kjötáts með miklu magni af kartöfluflögum.

Ég er kominn með vinnu á Landspítalanum sem vinnutík og hlaupari (læknanemi í starfi aðstoðarlæknis). Þar verður lúskrað á andlegu hliðinni minni.

Ég fer líka til Hróaskeldu, 5. júlí en ekki með þessum manni (GRV) sem er ekkert nema dusilmenni og úrkynjað letidýr.

Hann sveik land og þjóð og ætlar að gerast hirðingi í Síberíu og taka með sér sígaunaeitur því honum er illa við þá.






Eftir Hróaskeldu fer ég til Berlínar, þá Prag, Búdapest, Transylvaníu í Rúmeníu og þá Bucharest. Tek svo lest til Istanbúl og þaðan til Eyjahafsins í nokkra daga. Þessi óborganlega ferð verður farin í faglegum áhugamannahópi um ferðalög. Elín verður þar fremst í flokki ásamt Góðum drengjum á borð við Jóel Kristinn Jóelsson og Valentínus Þór Valdimarsson.









Endar sumarið aftur á þeim frábæra stað Landspítala Háskólasjúkrahús (LSH) í mánuð og hefst nám þá aftur á þeim frábæra stað LSH.

Tuesday, May 08, 2007

Dómsmat

Sitjandi á afturendanum með þursabit (bæklunarlæknar segja mítu að það sé til) í leðurstól í ákvörðunarkrísu. Pappírsvinna og geðveiki og yfirvinna og álag og ekkert frí og ábyrgð eða næturvinna og lítið álag og lítil ábyrgð og slökun með góðu sumarfríi. Nær sami peningur í báðum tilvikum en ekki sama reynsla. Geðheilsan sirka farin en 4 vikur af lestri eftir. Ef ég tek reynsluna þá er ég líklegur til að missa vitið.

Á pabbi að taka ákvörðunina fyrir mig? Á ég að fara eftir því sem vinir mínir segja? Á ég að hringja í vinalínuna? Skal hafa hlutköst um svona mál? Skal biðja til guðs í svona kringumstæðum?

Lífið er endalaus ákvörðunarkrísa. Sá á völina sem á kvölina.

Já það er ekkert grín að vera til, nýfæddur inn í heim hörkunar og sjúkdóma, greininga og yfirvinnu. Er skrefið stigið til fulls í sumar eða verður 3ja mánaða bið á því?